Graz
Staðsetning
Graz er staðsett í Austurríki
Graz
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Steiermark
Stærð: 127,46 km²
Íbúafjöldi: 273.838 (1. jan 2015)
Þéttleiki: 2.050/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 353 m
Vefsíða: http://www.grazz.at

Graz er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Steiermark. Með 274 þúsund íbúa (1. janúar 2015) er Graz næststærsta borgin í Austurríki. Í borginni er háskóli. Miðborgin og Eggenberg-kastali eru á heimsminjaskrá UNESCO. Síðan í mars 2011 er Graz UNESCO City of Design.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Graz liggur við ána Mur sunnarlega í Austurríki í frekar þröngu dalverpi. Fjöll umliggja borgina á þrjá vegu, sem liggur því mjög ílöng í norður/suðurstefnu meðfram Mur. Slóvensku landamærin eru aðeins 40 km fyrir sunnan. Næstu stærri borgir eru Maribor í Slóveníu til suðurs (50 km), Klagenfurt til suðvesturs (130 km) og Vín til norðausturs (190 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Graz er hvítt pardusdýr á grænum grunni. Á höfðinu situr gullkóróna. Pardusdýrið er tilkomið 1315, en á því ári fór aðallinn frá Steiermark í herför með Ottokar II konungi Bæheims til að berjast við Ungverja. Merki Ottokars var hvítt pardusdýr á grænum grunni. Merkið er einnig skjaldarmerki Steiermark, fyrir utan rauðu eldtungurnar og gullkórónuna.

Orðsifjar

[breyta | breyta frumkóða]

Borgin dregur heiti sitt af slavneska orðinu gradec, sem merkir lítið virki. Þegar þýskumælandi fólk settist þar að var hljóðmyndinni breytt í Gratz, en síðar í Graz.

Saga Graz

[breyta | breyta frumkóða]
Graz, Georg Matthäus Vischer (1670)

Upphaf

[breyta | breyta frumkóða]

Það voru slavar sem fyrstir reistu virki á staðnum, en héraðið var þá strjálbýlt. Þeir voru kristnaðir af bæjurum og frönkum á 7. öld, en seinna gengu þeir upp í mannhafi Karlamagnúsar. Á 10. öld réðust Ungverjar inn í héraðið. Þegar þeir voru endanlega sigraðir 955, stóð Bæjaraland fyrir germönsku landnámi í og við Graz. Næstu áratugi réðu hinar og þessar ættir yfir bænum. Graz kemur fyrst við skjöl á árinu 1128/29 að talið er. Bærinn var þá lítill, ekki meira en þorp. En 1160 eignast Ottokar III frá Bæjaralandi héraðið og bæinn. Við það myndaðist veglegur markaður í Graz. 1233 fær bærinn sína fyrstu múra. 1379 eignast Habsborgarar Graz. Þeir reistu sér veglegt aðsetur þar og stjórnuðu þaðan héraðinu í kring. Bærinn varð því að nokkurs konar höfuðborg héraðsins í kring, en það náði yfir mestan hluta Steiermark, hluta Kärnten og nyrstu hluta Ítalíu og Slóveníu.

Skólar

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar árið 1573 var stofnaður latínuskóli í Graz. Tólf árum síðar stofnaði erkihertoginn Karl II háskóla þar í borg og ári síðar voru skólarnir sameinaðir. Annar skóli var stofnaður á 16. öld af siðaskiptamönnum, nokkurn veginn sem mótvægi við kaþólska háskólann. Stjörnufræðingurinn Johannes Kepler kenndi við þann skóla 1594-1600. Sökum tíðra innrása Tyrkja (osmana) í héraðið á 17. öld fluttu allir Habsborgarar og stjórnkerfi þeirra til Vínar. Tyrkir náðu hins vegar ekki að vinna Graz.

Franski tíminn

[breyta | breyta frumkóða]
Klukkuturninn sem íbúar Graz fengu að bjarga er einkennismerki borgarinnar í dag

10. apríl 1797 hertóku Frakkar Graz. Tveimur dögum síðar birtist Napleon sjálfur í borginni og dvaldi þar í tvo daga. Frakkar stóðu stutt við að þessu sinni, en hertóku Graz á nýjan leik 14. nóvember 1805. Að þessu sinni voru Frakkar í nokkra mánuði í borginni áður en þeir héldu áfram. 1809 hertóku Frakkar Graz í þriðja sinn. Króatískar hersveitir birtust skömmu síðar og hófu skærur á hendur Frökkum. Friður komst á í júlí 1809, en Frakkar ákváðu að sprengja virkið í borginni. Áður fengu íbúar Graz að bjarga klukkuturninn (með bjöllum) og klukkuturninn (með úri) úr virkinu fyrir tæplega 3.000 gyllini. Síðari turninn er einkennisbygging Graz enn í dag. Virkið var síðan sprengt, en Frakkar yfirgáfu borgina 4. janúar 1810. Eftir það tók borgin að blómstra. Iðnaður komst á um miðja 19. öld. Graz varð að miðstöð samgangna í norður-suðurátt, en einnig til Ungverjalands, Slóveníu og Ítalíu. Í borginni var stofnaður tækniskóli og sett var á laggirnar bókasafn.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir heimstyrjöldina fyrri var samið í Graz um stofnun lýðveldis í Austurríki, án aðkomu keisarans í Vín. Lýðveldið var stofnað 12. nóvember 1918 og tilkynnt hátíðlega af svölum leikhússins af sósíaldemókratanum Ludwig Oberzaucher. Í maí á næsta ári fóru fyrstu borgarstjórnarkosningar fram í Graz. Vinzenz Muchitsch varð borgarstjóri og sat hann til 1934, er Austurríki varð fasistaríki til skamms tíma. 1938 tóku nasistar við völdum eftir innlimun Austurríkis í Þýskaland. Stór hluti borgarbúa marseraði eftir aðalgötunum með hakakrossfána, þar á meðal meginþorri stúdentanna. Hitler sjálfur sótti borgina heim 3.-4. apríl 1938 og lét hilla sig úr opnum bíl. Graz var fyrsta borgin sem Hitler sótti heim í ferð sinni um Austurríki þennan mánuð. Svo mikill var fögnuðurinn í Graz að Hitler veitti borginni sæmdarheitið Borg rísandi fólksins (Stadt der Volkserhebung). Áður en árið var liðið var búið að flytja alla gyðinga burt úr Graz. Í heimstyrjöldinni sem fylgdi varð Graz fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Alls létust 1788 manns í þeim og um 16% húsanna eyðilögðust. Miðborgin slapp hins vegar að mestu við skemmdir. 1945 hertóku Sovétmenn borgina, en Bretar tóku við henni um sumarið. Graz var á breska hernámssvæðinu til 1955. Á því ári varð Austurríki lýðveldi á ný. Graz var höfuðborg sambandslandsins Steiermark og varð að nokkurs konar hliði fyrir suðaustasta hluta landsins. 1999 var miðborgin sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2001 varð Graz að mannréttindaborg Evrópu, 2003menningarhöfuðborg Evrópu.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Tvö stór knattspyrnufélög eru í Graz: SK Sturm Graz og Grazer AK. Sturm Graz hefur þrisvar orðið austurrískur meistari (1998, 1999 og 2011) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2010). Í alþjóðlegri knattspyrnu komst félagið í fjórðungsúrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1976) og í Evrópukeppni félagsliða (1984). Grazer AK hefur einu sinni orðið austurrískur meistari (2004) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2004).

Í íshokkí leikur liðið EC Graz 99ers í efstu deild. Í ruðningi leikur Turek Graz Giants einnig í efstu deild.

Maraþonhlaupið í Graz er árlegur viðburður síðan 1994 og fer fram í október. Samfara því er einnig hlaupið hálfmaraþon (Hervis Halbmarathon) og 9,6 km hlaup (Puma City Run).

Vinabæir

[breyta | breyta frumkóða]

Graz viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Dómkirkjan í Graz
Kastalinn Eggenberg

Miðborg Graz var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1999 sökum heillegs gamals borgarkjarna, þar sem hægt er að lesa byggingasöguna í gegnum tíðina einkar vel. Langflestar þekktar byggingar eru í miðborginni.

Heimildir

[breyta | breyta frumkóða]